Ferskfóðrun á grasi á fóðurgang

Ferskfóðrun á grasi á fóðurgang er málefni sem skiptar skoðanir eru um en almennt séð tel ég áhuga á slíku fara vaxandi í N Evrópu.

Hér er í fyrsta lagi grein sem fjallar um flóknar greiningar sem SEGES hefur ráðist í á málefninu og þar sem fram kemur að nokkur vinningur felist í þessari aðferð. Hins vegar set ég með lengri grein um sama málefni sem kom út á síðasta ári.

Almennt séð telja menn að ferskfóðrunin kosti í kringum 10% uppskeru í samanburði við 5 slætti þar sem menn gera ráð fyrir grasið sé slegið oftar (6-8 slættir) og grasið sé því yngra/minna vaxið við slátt.

Á móti kemur að með ferskfóðrun sparast 11-16% öndunar og blaðtap samanborið við forþurrkun og rúllun auk þess sem að menn sleppa við verkunartap sem menn áætla ca 5%.

Mér finnst sérstaklega áhugavert að sjá að menn eru að reyna að áætla hversu mikið uppskerutap fylgi því að slá 6-8 sinnum í stað 5 slátta vegna aukinnar umferðar/þjöppunar. Þarna áætla menn að aukið þjöppunartap geti legið á bilinu 8-13% umfram hefðbundna 5 slátta heyskapinn í DK. Vona að þetta tiltekna atriði sýni mönnum hversu alvarlega menn taka áhrif jarðvegsþjöppunar á uppskeru og lifun grasa.

Annars væri áhugavert að gera rannsókn á kostum ferskfóðrunar fyrir okkar aðstæður. Við vitum að nú þegar eru nokkrir bændur hérlendis sem stunda ferskfóðrun á grasi að einhverju leiti og væri forvitnilegt ef þeir væru til í að deila reynslusögum sínum með okkur.

Mín tilfinning er að vegna krefjandi veðurfars og takmarkana sem fylgja nýtingu beitar a mjaltaþjónabúum geti verið verulegur ávinningur í ferskfóðrun með grasi og stytta þá útiveru gripanna á hverjum degi.

En okkur vantar rannsóknir – tilfinning getur verið mjög óáreiðanleg í svona málefnum.

You may also like...

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *