Ef við erum með Vallarfoxgras sem lykilgrastegund í okkar bestu túnum þá skiptir miklu máli að sláttutíminn sé réttur ef hámarka á FEm og próteininnihald.
Það gerir okkur verkefnið mun léttara en ella að það er góð fylgni á milli FEm/kg þe og meltanlegs próteins í Vallarfoxgrasi eins og sjá má á meðfylgjandi töflu sem eins og margt annað sem ég vitna í er sótt í fræðsluefni frá Grovfor 2020.
Samkvæmt niðurstöðum Norðmannanna er besti sláttutíminn með tilliti til orkuinnihalds pr. kg þurrefni þegar er farið að sjá á axið á ca 10% stráana en þá er orkuinnihaldið ca 0.90FEm pr.kg þe. ef menn bíða aðeins viku lengur og farið er að sjá í flest öxin þá er orkugildið dottið niður í ca 0.85FEm og innihald meltanlegs próteins hefur snarfallið. Þannig að samkvæmt niðurstöðum þeirra á að slá um leið og er farið að sjá í axið á fyrstu stráunum og jafnvel fyrr ef menn vilja ekki lenda í því að próteinið sé farið að minnka of mikið í því sem menn slá seinna – þ.e. ef menn geta ekki slegið allt í einu.
Burtséð frá ofangreindu er fjöldi annarra þátta sem hafa áhrif á gæði uppskerunnar t.d. sýrustig jarðvegs og áburðargjöf en tökum það fyrir seinna.
Lesa meira