Vönduð heyverkun –nokkur mikilvæg minnisatriði

– fyrst birt í júní 2014.

Í textanum hér á eftir er farið yfir nokkur grundvallaratriði varðandi vandaða gróffóðurverkun sem hugsa má sem góða upprifjun því flest okkar hafa heyrt þetta margoft áður þó við munum kannski ekki eftir þessu öllu í augnablikinu. Ekki hika við að bæta við punktum sem ykkur finnst vanta eða spyrja/gagnrýna það sem ykkur finnst ekki passa.

Hreint fóður – meiri gæði.

  • Oft vill það gleymast hversu mikilvægt er að tryggja sem allra minnsta mengun jarðvegs (eða sinu) í fóðrinu okkar. Því auk þess að geta beinlínis stuðlað að sjúkdómum í búfénaði þá stuðlar jarðvegsmengun í blautu fóðri að lakari gerjun þar sem smjörsýru og ediksýrubakteríur ná yfirhöndinni og verulegt orkutap getur orðið í fóðrinu og fóðrið verður ólystugt
  • Í tilraunum sem gerðar hafa verið í Þýskalandi hefur komið í ljós að fyrir hvert 1% sem magn jarðvegsmengunnar í fóðrinu stígur er tjón mjólkurframleiðanda að lágmarki 20.000 kr á hverja mjólkurkú, sannarlega upphæð sem skiptir flesta mjólkurframleiðendur máli. Leiða má líkur að því að tjón fjárbænda og hrossabænda sé líka umtalsvert þó varla sé það jafn mikið og mjólkurframleiðenda.

Sláttuvélar.

  • Rétt stilling sláttuhæðar er grundvallaratriði þegar draga á úr jarðvegsmengun. Þumalfingurreglan er að stilla sláttuvélina ekki lægra en svo að hún skilji eftir snoð sem er að lágmarki 5 sm á hæð og gjarnan aðeins hærra því að þetta snoð á að halda slegna grasinu á lofti til að létta vinnu við snúning og rakstur. Allt of algegnt er hérlendis að tún séu slegin nánast alveg niður við rót sem hefur eitt og sér í för með sér aukna hættu á jarðvegsmengun við sjálfan sláttin auk þess að vinna við snúning og rakstur heysins mun óhjákvæmilega hafa í för með sér viðbótarmengun jarðvegs. Við sjáum oft ofsjónir yfir öllu því grasi sem verður eftir ef við sláum loðið en staðreyndin er að þessi hluti grassins er oftast mjög verðlítill enda að stærstum hluta trénaðir stönglar og sölnuð blöð auk þess sem endurvöxtur verður yfirleitt hraðari ef slegið er loðið.
  • Forðast ber eins og mögulegt er að steypa sláttuvélum fram við slátt því þá er óumflýjanlegt að hnífar sláttuvélarinnar höggvi í svörðinn þegar farið er yfir ójöfnur.
  • Flestar knosaravélar bjóða upp á þann valmöguleika að dreifa heyinu um leið og slegið er sem oft er mjög hentugt, flýtir þurrkun og fækkar yfirferðum með heyþyrlum.· Mikið atriði er að vanda alla vinnu á endum og hornum. Hafa ber hugfast að sláttur er ekki keppni í rallakstri og engin ástæða er til að taka beygjur á fullri ferð og rífa þannig upp grassvörðinn og jarðveg sem síðan blandast í fóðrið.
  • Forðast skal eins og mögulegt er að fara með sláttuvél niðri og í gangi yfir slegið gras þar sem slíkt stuðlar að auknu álagi á grassvörðinn auk þess sem það saxar grasið sem liggur slegið.
  • Á mörgum sláttuvélum er hægt að stilla þyngdaryfirfærslu af sláttuvélinni yfir á dráttarvélina til að sláttuvélin skemmi síður viðkvæman svörð t.d. á ungum túnum.
  • Oftast á sá beislisendi á dráttarvél sem nær er sláttuborði að vera hærra stilltur en hinn til að beislishluti sláttuvélarinnar sé láréttur vegna þess að stærstur hluti þunga sláttuvélarinnar hvílir á afturhjóli þeim megin.

Heyþyrlur.

  • Ef sláttuhæð hefur verið rétt stillt 5 cm eða hærra er engin þörf fyrir að beita heyþyrlum mjög neðarlega við snúning. Ágæt regla er að neðsta brún tinds sé 1-2 sm fyrir ofan svörðinn við snúning og ofar ef hægt er. Snúningur heys er sú aðgerð sem hvað oftast stuðlar að mestri jarðvegsmengun fóðurs við heyverkun.
  • Um leið og tindar byrja að snerta svörðinn byrja þeir að róta upp sinu og jarðveg sem mengar fóðrið og getur valdið miklu tapi.· Ávallt skal láta snúningsvélar snúast eins hægt og mögulegt er við snúning án þess að vinnslugæði minnki. Við snúning á blautu heyi er ágætis viðmiðun ca 450sn/mín og eftir því sem fóðrir þornar skal dregið frekar úr snúningshraðanum til að forðast molnun og tap á fíngerðum blöðum sem ávallt þorna fyrst og eru mjög verðmæt í fóðurlegu tilliti.
  • Það sama gildir og um slátt á endum og hornum, taka skal allar beygjur varlega og forðast að láta heyþyrluna snúa aftur heyi á endum sem áður er búið að fara yfir.

Rakstur.

  • Eins og við snúning heysins er mjög mikilvægt að tindar rakstarvélarinnar snerti aldrei svörðinn við rakstur þar sem sina og jarðvegur sem tindar rakstrarvélarinnar rótast í fer beint í múgann og þaðan í rúlluna.
  • Oftast á það hjól undir stjörnu múgavélar sem nær er múganum að vera heldur ofar stillt (tindur neðar) en ytra hjólið undir stjörnunni. Þetta er vegna þess að þarna megin bogna tindarnir aðeins aftur undan þunga heysins og hæð þeirra frá jörðu hækkar því aðeins.
  • Stilla skal snúningshraða á stjörnu/um rakstarvéla sem allra lægst til að draga úr álagi á heyinu og lágmarka tap. Það sama á við hér og við snúninginn, því þurrara sem fóðrið verður því minni snúningshraði.· Ef tún eru mjög óslétt eða erfið í rakstri er margfalt hagkvæmara að grófraka túnið fyrst og ná þannig hágæðafóðri og raka svo dreif á eftir sem verður þá sjálfkrafa mun lakara fóður.

Rúllun og pökkun.

  • Eins og áður skiptir miklu máli að tindar sópvindunnar snerti svörðinn sem allra minnst þar sem öll snerting stuðlar að því að jarðvegur mokast upp og mengar fóðrið.
  • Þéttleiki rúllana er afgerandi fyrir verkun í votheysrúllum því að lofttæmi er nauðsynlegt svo verkun takist vel. Ef mikið loft (súrefni) er í rúllunum leiðir það til aukins verkunartaps og meiri smjörsýru- og ediksýrumyndunar. Til að hámarka þjöppun er nauðsynlegt að haga aksturshraða eftir afkastagetu rúlluvélarinnar og tryggja að hnífar séu vel brýndir.
  • Alls ekki má spara net á rúllur þar sem rúllurnar þenjast þá meira út en ella þegar þær koma úr baggahólfinu sem leiðir til aukins súrefnis í bagganum = verri verkunar.
  • Huga þarf að pökkuninni og tryggja að plasthjúpurinn sé allsstaðar sexfaldur.
  • Rúlluplastið lekur alltaf sama hversu vandað það er en talsverður munur getur verið á loftleka á milli plasttegunda sem getur haft veruleg áhrif á verkun rúllana því borgar sig alltaf að velja vandað rúlluplast.
  • Lykilatriði er að ná rúllunum heim sem allra fyrst eftir rúllun ( helst innan 24 tíma) þar sem öll meðhöndlun á rúllunum leiðir af sér að súrefni kemst í einhverju mæli inn í rúlluna sem kemur af stað smjörsýru og ediksýrugerjun aftur í einhvern tíma með tilheyrandi tapi.
  • Allar skemmdir á plasti þarf að laga um leið til að lágmarka skemmdir á fóðri og truflun í verkun.
  • Með notkun íblöndunarefna sem innihalda mjólkursýrubakteríur má draga verulega úr tapi í verkun fóðursins í rúllunum, þ.e.a.s. fleiri kíló fara inná fóðurgang, fóðrið er lystugra og próteingæði aukast.
  • Fjöldi erlendra rannsókna hafa sýnt fram á að mun minni tap verði úr rúllum ef rúllunum er staflað upp á endan í stæðurnar þar sem plastið er langþykkast á endunum.

Hér að framan eru aðeins tiltekin nokkur þeirra atriða sem skipta miklu máli við vandaða heyverkun. Það er von mín að þessi atriði ásamt mörgum fleirum sem vonandi rifjast upp við lesturinn muni hjálpa við að búa til enn betra gróffóður og stuðla þannig að lægri útgjöldum vegna aðkeypts fóðurs.

You may also like...

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *