Núna þegar margir eru annaðhvort byrjaðir að huga að því að keyra húsdýraáburði á túnin, get ég ekki stillt mig um að birta þessa umfjöllun úr Norsk Landbrug þar sem er verið að fjalla um það mikla tjón sem þjöppun hefur á uppskeru túna og möguleika til að minnka það.
Á meðfylgjandi myndum má sjá vel hversu mikið tjón hefur orðið á yfirborði túnsins við það eitt að safna rúllunum heim. Á neðri myndinni er mönnum síðan bent á að með því að vera með ákveðna keyrsluleið og keyra svo út af henni styðstu leiðir er hægt að minnka það svæði sem verður fyrir tjóni mikið.
Ef hægt er að koma því við er mikill ávinningur í að hafa keyrsluvegi inn og út af túnum í báðum endum því þá sleppa menn við heilmikið af keyrslu með fulla haugsugu eða rúlluvagn eftir túninu.
Það sem við áttum okkur almennt ekki á þegar tjón af völdum jarðvegsþjöppunar er rætt er hversu víðtækt tjónið er. En í erlendum rannsóknum hafa menn fengið staðfest að uppskerutap af völdum þjöppunar er algengt á bilinu 10-35%. Ef við setjum tölur á tapið til að skilja þetta betur og segjum að góð uppskera af túni sé 6.000FEm á hektara og við missum 20% af uppskerunni vegna þjöppunar þá erum við að tapa 1.200 FEm á hektara. Ef við gefum okkur svo að verðmæti FEm í góðu gróffóðri sé 30kr þá er tjónið í krónum pr ha. 36.000 sem gerir 3,600.000 á 100ha.
Jarðvegur er sérstaklega viðkvæmur fyrir þjöppun á vorin og því mikilvægt að menn fari ekki of snemma með þung tæki út á tún. Eins skiptir miklu að vera með góð og breið dekk og minnka loftþrýstinginn í þeim eins og hægt er.
Eitt af því sem við áttum okkur yfirleitt ekki á er að þegar tún þjappast rennur vatn hægar og verr um jarðveginn og túnið verður því blautara sem eykur áhættuna af frekari þjöppun verulega. Samtímis gerist það að rótarkerfi grasanna verður grynnra og veikara sem eykur svo hættuna á dauða nytjagrasanna. Víða erlendis er áhugi manna á að keyra alltaf í sömu hjólförunum að aukast mjög og sætta sig þá við að uppskera í hjólförunum sé lítil en þeim mun meiri annars staðar í túninu. Til að vinna á móti þjöppun í þessum hjólförum er algengt að menn fari með loftunarplóga um hjólförinn 1-2svar á sumri.