Er gróffóður lykillinn af því að hækka hlutfall innlends fóðurs ?

Áhugaverð grein í Norsk Landbrug þar sem segir að gróffóðrið sé lykillinn að hækkuðu hlutfalli norsks fóðurs hjá mjólkurkúm.

Stjórnin í Tyne sem er MS þeirra norsku hefur sett sér langtímamarkmið um að allt fóður fyrir norskar mjólkurkýr skuli vera framleitt í Noregi. En staðan í dag er að um 20% af fóðri mjólkurkúa er innflutt.

Stjórnendur Tyne telja að þetta veiki ímyndi norsku framleiðslunnar og nauðsynlegt sé að tryggja að fóðrið verði að öllu leiti norskt til að viðhalda sérstöðu norskrar framleiðslu.

Hjá Tyne er það að tryggja að framleiðslan byggi alfarið á norsku fóðri liður í því að styrkja stöðu mjólkurinnar í stigvaxandi samkeppni við innfluttar vörur enda hafi norskir neytendur meiri trú heilnæmi og gæðum á innlendri framleiðslu sem byggi á innlendum hráefnum en innfluttum vörum.

Tyne rekur eigin ráðgjafamiðstöð sem aðstoðar bændur á ýmsan hátt við að bæta árangur sinn í framleiðslunni. Telja menn þar á bæ að lykillinn að hækkuðu hlutfalli norskra hráefna liggi í bættri nýtingu gróffóðurs enda hafi menn vanrækt mat og mælingar á uppskeru og gæðum gróffóðurs í samanburði við t.d. mælingar á kornuppskeru. Þessu vilja menn breyta og gera aðgengilega þá þekkingu sem er til um gróffóðurrækt og hvernig megi hámarka árangur í henni og telja að með réttri nálgun þurfi hækkað hlutfall gróffóðurs ekki að minnka nyt gripanna.

Er ekki tímabært að við förum að móta sambærilega stefnu hérlendis og stíga fyrstu skrefin út úr þeirri glórulausu þróun sem hér ríkir þar sem hlutfall innflutts fóðurs hefur bara farið hækkandi. Þróun sem engin bóndi er stoltur af en menn virðast samt ekki almennt vilja takast á við?

You may also like...

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *