Category: Aukum innlenda fóðurgerð

Jarðvegsþjöppun

Núna þegar margir eru annaðhvort byrjaðir að huga að því að keyra húsdýraáburði á túnin, get ég ekki stillt mig um að birta þessa umfjöllun úr Norsk Landbrug þar sem er verið að fjalla um það mikla tjón sem þjöppun hefur á uppskeru túna og möguleika til að minnka það.

Á meðfylgjandi myndum má sjá vel hversu mikið tjón hefur orðið á yfirborði túnsins við það eitt að safna rúllunum heim. Á neðri myndinni er mönnum síðan bent á að með því að vera með ákveðna keyrsluleið og keyra svo út af henni styðstu leiðir er hægt að minnka það svæði sem verður fyrir tjóni mikið.

Ef hægt er að koma því við er mikill ávinningur í að hafa keyrsluvegi inn og út af túnum í báðum endum því þá sleppa menn við heilmikið af keyrslu með fulla haugsugu eða rúlluvagn eftir túninu.

Það sem við áttum okkur almennt ekki á þegar tjón af völdum jarðvegsþjöppunar er rætt er hversu víðtækt tjónið er. En í erlendum rannsóknum hafa menn fengið staðfest að uppskerutap af völdum þjöppunar er algengt á bilinu 10-35%. Ef við setjum tölur á tapið til að skilja þetta betur og segjum að góð uppskera af túni sé 6.000FEm á hektara og við missum 20% af uppskerunni vegna þjöppunar þá erum við að tapa 1.200 FEm á hektara. Ef við gefum okkur svo að verðmæti FEm í góðu gróffóðri sé 30kr þá er tjónið í krónum pr ha. 36.000 sem gerir 3,600.000 á 100ha.

Jarðvegur er sérstaklega viðkvæmur fyrir þjöppun á vorin og því mikilvægt að menn fari ekki of snemma með þung tæki út á tún. Eins skiptir miklu að vera með góð og breið dekk og minnka loftþrýstinginn í þeim eins og hægt er.

Eitt af því sem við áttum okkur yfirleitt ekki á er að þegar tún þjappast rennur vatn hægar og verr um jarðveginn og túnið verður því blautara sem eykur áhættuna af frekari þjöppun verulega. Samtímis gerist það að rótarkerfi grasanna verður grynnra og veikara sem eykur svo hættuna á dauða nytjagrasanna. Víða erlendis er áhugi manna á að keyra alltaf í sömu hjólförunum að aukast mjög og sætta sig þá við að uppskera í hjólförunum sé lítil en þeim mun meiri annars staðar í túninu. Til að vinna á móti þjöppun í þessum hjólförum er algengt að menn fari með loftunarplóga um hjólförinn 1-2svar á sumri.

Einær Lúpína

Hluti af því að við verðum minna háð innflutningi á innfluttu fóðri er að við getum framleitt meira af próteini í grösunum okkar og með akuryrkju.

Ein þeirra plantna sem gæti hentað hér sem einær próteinjurt er lúpína en hún var talsvert ræktuð í Evrópu fyrr á árum en hefur síðan vikið fyrir öðrum uppskerumeiri tegundum. Vegna aukinnar áherslu í Evrópu um að draga úr innfluttningi á próteinfóðri hefur aukin athygli beinst að lúpínunni og aukin kraftur hefur verið settur í framræktun uppskerumeiri afbrigða eins og lesa má um í meðfylgjandi grein frá Danmörku.

RALA gerði fyrir ca 20 árum nokkrar tilraunir með ræktun á einærri lúpínu en veit ekki til þess að hún hafi verið í tilraunum síðan.

Veit einhver til þess að bændur hafi verið að prófa ræktun á einærri lúpínu á síðustu árum?

Væru ekki einhverjir bændur áhugasamir um að prófa ræktun á nokkrum afbrigðum næsta vor í smá blettum til að koma hreyfingu á svona ræktun aftur.

Það mætti hugsa sér að skella með einhverjum ertu eða baunategundum sem menn eru að rækta í N Skandinaviu í dag.

Það er ekki seinna vænna ef menn langar að prófa eitthvað nýtt næsta sumar en fara að undirbúa það því vorið er handan við hornið.

Vönduð heyverkun –nokkur mikilvæg minnisatriði

– fyrst birt í júní 2014.

Í textanum hér á eftir er farið yfir nokkur grundvallaratriði varðandi vandaða gróffóðurverkun sem hugsa má sem góða upprifjun því flest okkar hafa heyrt þetta margoft áður þó við munum kannski ekki eftir þessu öllu í augnablikinu. Ekki hika við að bæta við punktum sem ykkur finnst vanta eða spyrja/gagnrýna það sem ykkur finnst ekki passa.

Hreint fóður – meiri gæði.

  • Oft vill það gleymast hversu mikilvægt er að tryggja sem allra minnsta mengun jarðvegs (eða sinu) í fóðrinu okkar. Því auk þess að geta beinlínis stuðlað að sjúkdómum í búfénaði þá stuðlar jarðvegsmengun í blautu fóðri að lakari gerjun þar sem smjörsýru og ediksýrubakteríur ná yfirhöndinni og verulegt orkutap getur orðið í fóðrinu og fóðrið verður ólystugt
  • Í tilraunum sem gerðar hafa verið í Þýskalandi hefur komið í ljós að fyrir hvert 1% sem magn jarðvegsmengunnar í fóðrinu stígur er tjón mjólkurframleiðanda að lágmarki 20.000 kr á hverja mjólkurkú, sannarlega upphæð sem skiptir flesta mjólkurframleiðendur máli. Leiða má líkur að því að tjón fjárbænda og hrossabænda sé líka umtalsvert þó varla sé það jafn mikið og mjólkurframleiðenda.

Sláttuvélar.

  • Rétt stilling sláttuhæðar er grundvallaratriði þegar draga á úr jarðvegsmengun. Þumalfingurreglan er að stilla sláttuvélina ekki lægra en svo að hún skilji eftir snoð sem er að lágmarki 5 sm á hæð og gjarnan aðeins hærra því að þetta snoð á að halda slegna grasinu á lofti til að létta vinnu við snúning og rakstur. Allt of algegnt er hérlendis að tún séu slegin nánast alveg niður við rót sem hefur eitt og sér í för með sér aukna hættu á jarðvegsmengun við sjálfan sláttin auk þess að vinna við snúning og rakstur heysins mun óhjákvæmilega hafa í för með sér viðbótarmengun jarðvegs. Við sjáum oft ofsjónir yfir öllu því grasi sem verður eftir ef við sláum loðið en staðreyndin er að þessi hluti grassins er oftast mjög verðlítill enda að stærstum hluta trénaðir stönglar og sölnuð blöð auk þess sem endurvöxtur verður yfirleitt hraðari ef slegið er loðið.
  • Forðast ber eins og mögulegt er að steypa sláttuvélum fram við slátt því þá er óumflýjanlegt að hnífar sláttuvélarinnar höggvi í svörðinn þegar farið er yfir ójöfnur.
  • Flestar knosaravélar bjóða upp á þann valmöguleika að dreifa heyinu um leið og slegið er sem oft er mjög hentugt, flýtir þurrkun og fækkar yfirferðum með heyþyrlum.· Mikið atriði er að vanda alla vinnu á endum og hornum. Hafa ber hugfast að sláttur er ekki keppni í rallakstri og engin ástæða er til að taka beygjur á fullri ferð og rífa þannig upp grassvörðinn og jarðveg sem síðan blandast í fóðrið.
  • Forðast skal eins og mögulegt er að fara með sláttuvél niðri og í gangi yfir slegið gras þar sem slíkt stuðlar að auknu álagi á grassvörðinn auk þess sem það saxar grasið sem liggur slegið.
  • Á mörgum sláttuvélum er hægt að stilla þyngdaryfirfærslu af sláttuvélinni yfir á dráttarvélina til að sláttuvélin skemmi síður viðkvæman svörð t.d. á ungum túnum.
  • Oftast á sá beislisendi á dráttarvél sem nær er sláttuborði að vera hærra stilltur en hinn til að beislishluti sláttuvélarinnar sé láréttur vegna þess að stærstur hluti þunga sláttuvélarinnar hvílir á afturhjóli þeim megin.

Heyþyrlur.

  • Ef sláttuhæð hefur verið rétt stillt 5 cm eða hærra er engin þörf fyrir að beita heyþyrlum mjög neðarlega við snúning. Ágæt regla er að neðsta brún tinds sé 1-2 sm fyrir ofan svörðinn við snúning og ofar ef hægt er. Snúningur heys er sú aðgerð sem hvað oftast stuðlar að mestri jarðvegsmengun fóðurs við heyverkun.
  • Um leið og tindar byrja að snerta svörðinn byrja þeir að róta upp sinu og jarðveg sem mengar fóðrið og getur valdið miklu tapi.· Ávallt skal láta snúningsvélar snúast eins hægt og mögulegt er við snúning án þess að vinnslugæði minnki. Við snúning á blautu heyi er ágætis viðmiðun ca 450sn/mín og eftir því sem fóðrir þornar skal dregið frekar úr snúningshraðanum til að forðast molnun og tap á fíngerðum blöðum sem ávallt þorna fyrst og eru mjög verðmæt í fóðurlegu tilliti.
  • Það sama gildir og um slátt á endum og hornum, taka skal allar beygjur varlega og forðast að láta heyþyrluna snúa aftur heyi á endum sem áður er búið að fara yfir.

Rakstur.

  • Eins og við snúning heysins er mjög mikilvægt að tindar rakstarvélarinnar snerti aldrei svörðinn við rakstur þar sem sina og jarðvegur sem tindar rakstrarvélarinnar rótast í fer beint í múgann og þaðan í rúlluna.
  • Oftast á það hjól undir stjörnu múgavélar sem nær er múganum að vera heldur ofar stillt (tindur neðar) en ytra hjólið undir stjörnunni. Þetta er vegna þess að þarna megin bogna tindarnir aðeins aftur undan þunga heysins og hæð þeirra frá jörðu hækkar því aðeins.
  • Stilla skal snúningshraða á stjörnu/um rakstarvéla sem allra lægst til að draga úr álagi á heyinu og lágmarka tap. Það sama á við hér og við snúninginn, því þurrara sem fóðrið verður því minni snúningshraði.· Ef tún eru mjög óslétt eða erfið í rakstri er margfalt hagkvæmara að grófraka túnið fyrst og ná þannig hágæðafóðri og raka svo dreif á eftir sem verður þá sjálfkrafa mun lakara fóður.

Rúllun og pökkun.

  • Eins og áður skiptir miklu máli að tindar sópvindunnar snerti svörðinn sem allra minnst þar sem öll snerting stuðlar að því að jarðvegur mokast upp og mengar fóðrið.
  • Þéttleiki rúllana er afgerandi fyrir verkun í votheysrúllum því að lofttæmi er nauðsynlegt svo verkun takist vel. Ef mikið loft (súrefni) er í rúllunum leiðir það til aukins verkunartaps og meiri smjörsýru- og ediksýrumyndunar. Til að hámarka þjöppun er nauðsynlegt að haga aksturshraða eftir afkastagetu rúlluvélarinnar og tryggja að hnífar séu vel brýndir.
  • Alls ekki má spara net á rúllur þar sem rúllurnar þenjast þá meira út en ella þegar þær koma úr baggahólfinu sem leiðir til aukins súrefnis í bagganum = verri verkunar.
  • Huga þarf að pökkuninni og tryggja að plasthjúpurinn sé allsstaðar sexfaldur.
  • Rúlluplastið lekur alltaf sama hversu vandað það er en talsverður munur getur verið á loftleka á milli plasttegunda sem getur haft veruleg áhrif á verkun rúllana því borgar sig alltaf að velja vandað rúlluplast.
  • Lykilatriði er að ná rúllunum heim sem allra fyrst eftir rúllun ( helst innan 24 tíma) þar sem öll meðhöndlun á rúllunum leiðir af sér að súrefni kemst í einhverju mæli inn í rúlluna sem kemur af stað smjörsýru og ediksýrugerjun aftur í einhvern tíma með tilheyrandi tapi.
  • Allar skemmdir á plasti þarf að laga um leið til að lágmarka skemmdir á fóðri og truflun í verkun.
  • Með notkun íblöndunarefna sem innihalda mjólkursýrubakteríur má draga verulega úr tapi í verkun fóðursins í rúllunum, þ.e.a.s. fleiri kíló fara inná fóðurgang, fóðrið er lystugra og próteingæði aukast.
  • Fjöldi erlendra rannsókna hafa sýnt fram á að mun minni tap verði úr rúllum ef rúllunum er staflað upp á endan í stæðurnar þar sem plastið er langþykkast á endunum.

Hér að framan eru aðeins tiltekin nokkur þeirra atriða sem skipta miklu máli við vandaða heyverkun. Það er von mín að þessi atriði ásamt mörgum fleirum sem vonandi rifjast upp við lesturinn muni hjálpa við að búa til enn betra gróffóður og stuðla þannig að lægri útgjöldum vegna aðkeypts fóðurs.

Sykurinnihald í 1 slætti af grasi með Rauðsmára hjá lífrænum dönskum mjólkurframleiðendum

Hér er mjög áhugaverð grein frá Danmörku þar sem fjallað er um mjög hátt sykurinnihald í 1 slætti af grasi með Rauðsmára hjá lífrænum dönskum mjólkurframleiðendum í ár.

Orkuinnihald grassins er það hátt að kg þurrefni af fyrsta slætti er með hærra orkuinnihald en kg þurrefnis af völsuðum Höfrum.Helsta ástæðan sem er nefnd fyrir þessu háa sykurinnihaldi í grasinu í ár er mjög kalt vor á danskan mælikvarða.

Í greininni kemur fram að orkuinnihaldið í kg þurrefnis sé 6,52 MJ og eins og sjá má af meðfylgjandi línuritum þá er þetta mun hærra orkugildi en undanfarin ár.

Taka skal fram að þessar tölur eru meðaltal 230 lífrænna mjólkurframleiðenda.

Er eitthvað sem mælir á móti því að við getum búið til svona orkuríkt fóður á okkar túnum ef við vöndum okkur vel eða erum við kannski að ná sambærilegum árangri nú þegar?

Hafrar, valkostur samhliða byggi ?

Þessi bóndi hér fyrir neðan fóðrar kýrnar sínarí á afhýddum höfrum og telur að gripirnir séu sólgnari í hafrana en valsað bygg – auk þess sem orkuinnihaldið sé hærra. Hafrar eru úrvalsfóður og kannski ættum við að fara að horfa meira til þeirra sem vakostar í akuryrkjunni samhliða byggi.

Er einhver búin að sjá niðurstöður úr yrkjatilraununum með hafra sem gerðar voru í sumar?

Hafrarnir hafa það svo framyfir bygg að ef menn sjá fram á líkur á uppskeru verði litlar vegna kaldra sumra þá eru hafrarnir mun uppskerumeiri og verðmætari sem grænfóður en bygg.

Nokkur góð ráð um hvernig eigi að ná hárri % gróffóðurs í heildarfóðri kúa

Eins og áður hefur komið fram þá leggja forsvarsmenn norskra bænda mikla áherslu á að hækka hlutfall innlends gróffóðurs í fóðri mjólkurkúa. Enda skipti það miklu máli til að tryggja sterka ímynd norskra afurða í samkeppni við ódýra innflutta vöru. Það er mjög gagnlegt fyrir okkur að horfa til Noregs með tilliti til leiða til að bæta okkar stöðu þar sem aðstæður varðandi gróffóðurræktun eru að mörgu leiti nokkuð líkar.

Í nýjasta tímariti Buskap er talsverð umfjöllun um þetta verkefni og meðal annars viðtal við Leif Sverre Lökken sem er kúabóndi sem hefur náð góðum árangri í að hækka gróffóðurhlutfallið hjá sér. Hlutfallið er í dag komið í 25% kjarnfóður pr framleiddan líter en hann stefnir enn hærra. Væntanlega er talsverður hluti kjarnfóðursins af norskum uppruna þannig að hlutfall innlends fóðurs af heildarfóðri gripanna er örugglega mjög hátt.

Það er áhugavert að sjá að gróffóðurát kúnna hjá honum er 96MJ pr.kýr á dag (13,5FEm) meðan að meðaltalið fyrir svæðið og Noreg í heild er 70MJ. Það væri áhugavert ef einhver gæti deilt sambærilegum tölum héðan.

Með greininni fylgja nokkur góð ráð um hvernig eigi að ná hárri % gróffóðurs í heildarfóðri kúnna sem koma hér þýdd.

  • Slá snemma til að tryggja hátt orkuinnihald í grasinu
  • Jöfn fóðrun þar sem grasi frá mismunandi sláttutímum er blandað saman
  • Hafa sömu gæði af fóðrinu á öllum fóðurgangnum til að forðast val gripa
  • Tryggja að það sé alltaf gróffóður aðgengilegt fyrir gripina á fóðurgangnum
  • Fóðra að lágmarki kvölds og morgna
  • 1 átpláss fyrir hvern grip til að tryggja jafn aðgengi gripanna
  • Hreinsa fóðurganginn á hverjum morgni
  • Hafa geldkýr sér til að tryggja að þær verði ekki of feitar við burð

Vorsáður rúgur

Hér er mjög áhugaverð grein úr Landbrugsavisen Kvæg um hversu góður vorsáður Rúgur er til beitar. Lífrænir bændur í Danmörku hafa notað Rúginn með góðum árangri í fjölda ára sem beitarplöntu – oft í sáðskiptum þegar komin hefur verið ræktunarþreyta í tún með Rígresi og Rauðsmára.

Meltanleiki Rúgsins er yfir 90% FEm svipað og í toppgrasi en sætleiki meiri (sykur um 17%) og prótein í kringum 30% allt gildi sem eru jöfn og/eða hærri en þau geta best orðið í bestu túnum með Rýgresi og Rauðsmára.

Ég hef heyrt af nokkrum bændum sem notuðu vetrarrúg sem vorbeit en það væri gaman að heyra hversu margir stundi slíkt enn. Eins væri gaman að heyra ef menn muna eftir einhverjum nýlegum tilraunum með sáningu Vorrúgs til beitar.

Eitt af því sem við þurfum að horfa meira til, ef við viljum í alvöru auka innlenda fóðurframleiðslu, er að finna leiðir til að nýta beitina mun betur og draga um leið verulega úr kaupum á aðkeyptu kjarnfóðri og próteini yfir beitartímann. Kannski getur Rúgurinn hjálpað til við það en þangað til það skýrist þá getum við allavega gert mun betur í ræktun Rauðsmára í túnum.

Er gróffóður lykillinn af því að hækka hlutfall innlends fóðurs ?

Áhugaverð grein í Norsk Landbrug þar sem segir að gróffóðrið sé lykillinn að hækkuðu hlutfalli norsks fóðurs hjá mjólkurkúm.

Stjórnin í Tyne sem er MS þeirra norsku hefur sett sér langtímamarkmið um að allt fóður fyrir norskar mjólkurkýr skuli vera framleitt í Noregi. En staðan í dag er að um 20% af fóðri mjólkurkúa er innflutt.

Stjórnendur Tyne telja að þetta veiki ímyndi norsku framleiðslunnar og nauðsynlegt sé að tryggja að fóðrið verði að öllu leiti norskt til að viðhalda sérstöðu norskrar framleiðslu.

Hjá Tyne er það að tryggja að framleiðslan byggi alfarið á norsku fóðri liður í því að styrkja stöðu mjólkurinnar í stigvaxandi samkeppni við innfluttar vörur enda hafi norskir neytendur meiri trú heilnæmi og gæðum á innlendri framleiðslu sem byggi á innlendum hráefnum en innfluttum vörum.

Tyne rekur eigin ráðgjafamiðstöð sem aðstoðar bændur á ýmsan hátt við að bæta árangur sinn í framleiðslunni. Telja menn þar á bæ að lykillinn að hækkuðu hlutfalli norskra hráefna liggi í bættri nýtingu gróffóðurs enda hafi menn vanrækt mat og mælingar á uppskeru og gæðum gróffóðurs í samanburði við t.d. mælingar á kornuppskeru. Þessu vilja menn breyta og gera aðgengilega þá þekkingu sem er til um gróffóðurrækt og hvernig megi hámarka árangur í henni og telja að með réttri nálgun þurfi hækkað hlutfall gróffóðurs ekki að minnka nyt gripanna.

Er ekki tímabært að við förum að móta sambærilega stefnu hérlendis og stíga fyrstu skrefin út úr þeirri glórulausu þróun sem hér ríkir þar sem hlutfall innflutts fóðurs hefur bara farið hækkandi. Þróun sem engin bóndi er stoltur af en menn virðast samt ekki almennt vilja takast á við?

Minnkað umhverfisspor bónda í Noregi

Hér fyrir neðan er áhugaverð grein úr Norsk Landbrug um hann Jóhannes, norskan bónda, sem er vel meðvitaður um umhverfismál og hefur á síðustu 10 árum náð mjög góðum árangri í að minnka umhverfisspor framleiðslu sinnar.

Hann hefur meðal annars dregið úr innkaupum á köfnunarefnisáburði um 30% (úr130kg/N.ha í 100kg/N.ha), hækkað nyt gripanna úr 8000 í 9000 l án þess að auka innkeypt kjarnfóður.

Það einkennir flestar þeirra aðgerða sem Jóhannes hefur ráðist í að þær gagnast bæði fjáhagnum og umhverfinu. T.d. sá hann að það kostaði hann um 15.000 kr á klst að plægja og útfrá því sá hann að ef hann myndi hætta að nota plóginn gæti hann haft sömu afkomu af kornökrunum sínum þó uppskeran minnkaði um allt að 1.000kg á ha. Sem varð reyndar ekki raunin því með því að tileinka sér nýjustu þekkingu frá Landbúnaðarháskólanum á Ási varð minnkunin mun minni.

Eitt af því fyrsta sem Jóhannes gerði eftir að hann tók við fyrir 10 árum var að kaupa sér slöngudreifibúnað til að hámarka nýtingu húsdýraáburðarins þar sem hann sá að með þessari tækni gæti hann bæði bætt nýtingu húsdýraáburðarins mikið auk þess að spara mikinn tíma því þegar hann byrjaði tók það hann fjórtán daga vor og haust að keyra út húsdýraáburðinum. Með slöngubómunni dreifir hann í dag 30 tonnum/ha á túnin á vorin, 30 tonnum/ha eftir fyrsta slátt.

Diselnotkunin hefur minnkað úr 17 l/ha fyrir 10 árum þegar hann tók við niður í 7l/ha þrátt fyrir að hann hafi tekið yfir rúllun og pökkun árið 2012 sem nágranni hans sá um fram að því.

Árið 2015 breytti Jóhannes mjaltaaðstöðunni í fjósinu hjá sér úr mjaltagryfju yfir í mjaltaþjón og telur þá breytingu hafa skipt miklu.

Nytin hjá honum fór úr að liggja í kringum 8000l upp í 9000l síðustu 4 ár. Á sama tíma hefur kjarnfóðurhlutfallið lækkað úr rúmum 30% niður í 25% í dag. Hann segist hafa tekið eftir því að bændur hallist að því að gefa of mikið kjarnfóður því það sé svo einfalt að bæta 1 eða 2 kg/dag af kjarnfóðri við til að gripirnir fái nú örugglega nóg. Aftur á móti sé mjög auðvelt að stýra þessu nákvæmlega með mjaltaþjóni sem mæli nytina nákvæmlega við hverjar mjaltir. Eftir að mjaltaþjónninn var settur upp ákvað hann líka að prófa sig áfram með því að minnka kjarnfóðurgjöfina hjá hámjólka kúm og komst að því að í stað þess að nytin myndi minnka, sem hann átti von á, jókst nytin sem bendir til þess að hann var að nota of mikið kjarnfóður í fóðruninni áður. Helsta ástæðan fyrir að hann ákvað að prófa þetta var að hann hafði tekið eftir að hluti gripanna var þunnan skít og eins fann hann að það var lykt af súrri vömb í fjósinu, sem hann telur skýr merki á of sterkri fóðrun í fjósinu og að vömb gripanna sé ekki í kjörstöðu.

Jóhannes hefur dregið að sér miklar upplýsingar um hvernig búa skuli til gott gróffóður en hann segir að það sé langt í frá auðvelt að nýta alla þá þekkingu í praksis. En samkvæmt mælingum sem gerðar voru árið 2016 með aðstoð ráðunauta frá Tine komust menn að því að orkumagnið í gróffóðrinu sem hann uppskar + kjarnfóðrið að frádreginni orkunni sem hann framleiddi í mjólkinni sýndi að búið hans var með mjög góða orkunýtingu fóðurs og að orkunýtingin lág nánast á pari við fyrirfram sett markmið hans.

Góður árangur í gróffóðurframleiðslu hefur þýtt að hann kaupir í dag inn sama magn af kjarnfóðri og hann gerði árið 2010 þrátt fyrir að framleiðslan hafi aukist úr 210.000l í 250.000lítra á sama tímabili.Jóhannes segir að síðustu 2 ár hafi verið erfið með tilliti til að lækka kjarnfóðurhlutfallið frekar vegna mikilla þurrka árið 2018 og eftirkasta þess árið 2019.

Til að hámarka gæði gróffóðursins síns þá leitast Jóhannes eftir því að slá snemma og segir að í sjálfu sér sé einfalt að sleppa þörfinni fyrir soja (prótein) í kjarnfóðrinum með því að slá snemma en Jóhannes leitast við að slá fyrsta slátt í kringum viku fyrir skrið og telur það um 60% af gróffóðurmagninu. Seinni sláttur er aftur á móti tekin um skrið til að fá meiri struktur (tréni) í fóðrið.Meðaluppskerna hjá Jóhannesi í túnræktinni liggur um 7500 fóðureiningar/ha.

Hvenær er grasið verðmætast?

Ef við erum með Vallarfoxgras sem lykilgrastegund í okkar bestu túnum þá skiptir miklu máli að sláttutíminn sé réttur ef hámarka á FEm og próteininnihald.

Það gerir okkur verkefnið mun léttara en ella að það er góð fylgni á milli FEm/kg þe og meltanlegs próteins í Vallarfoxgrasi eins og sjá má á meðfylgjandi töflu sem eins og margt annað sem ég vitna í er sótt í fræðsluefni frá Grovfor 2020.

Samkvæmt niðurstöðum Norðmannanna er besti sláttutíminn með tilliti til orkuinnihalds pr. kg þurrefni þegar er farið að sjá á axið á ca 10% stráana en þá er orkuinnihaldið ca 0.90FEm pr.kg þe. ef menn bíða aðeins viku lengur og farið er að sjá í flest öxin þá er orkugildið dottið niður í ca 0.85FEm og innihald meltanlegs próteins hefur snarfallið. Þannig að samkvæmt niðurstöðum þeirra á að slá um leið og er farið að sjá í axið á fyrstu stráunum og jafnvel fyrr ef menn vilja ekki lenda í því að próteinið sé farið að minnka of mikið í því sem menn slá seinna – þ.e. ef menn geta ekki slegið allt í einu.

Burtséð frá ofangreindu er fjöldi annarra þátta sem hafa áhrif á gæði uppskerunnar t.d. sýrustig jarðvegs og áburðargjöf en tökum það fyrir seinna.

Lesa meira