Category: Aukum innlenda fóðurgerð

Grasmjólk

Hér kemur stutt umfjöllun úr norska fagblaðinu Boskap þar sem fjallað er um danskan bónda sem framleiðir svokallaða Grasmjólk en það er mjólk sem framleidd er að lágmarki með 75% af fóðrinu úr heyi og fersku grasi. Afgangurinn má svo vera korn, steinefni og prótein en ekki votverkað gras.

Þarna kemur fram að danski bóndinn fær um 25-30% meira greitt fyrir líterinn af þessari mjólk sem kemur á móti 20-30% lægri nyt þegar lítið er notað af kjarnfóðri.Þarna kemur einnig fram að Grasmjólk er hollari en hefðbundin mjólk þar sem í henni er hærra innihald af Omega-3 fitusýrum og Andoxunarefnum heldur en í mjólk framleiddri með hærra innihaldi kjarnfóðurs og votverkaðs fóðurs.

Er ekki tækifæri núna til að endurskoða fóðrunarstefnuna á kúabúum landsins og byrja á að draga hægt og rólega úr innkeyptu kjarnfóðri. Að ég tali nú ekki um kjarnfóður með Pálmaolíu og álíka efnum sem dregur verulega úr hollustu mjólkurinnar þar sem í Pálmaolíunni er mikið af löngum fitusýrukeðjum.Eru ekki annars allir hættir að kaupa kjarnfóður með Pálmaolíu eftir umræðu síðustu ára?

Ferskfóðrun á grasi á fóðurgang

Ferskfóðrun á grasi á fóðurgang er málefni sem skiptar skoðanir eru um en almennt séð tel ég áhuga á slíku fara vaxandi í N Evrópu.

Hér er í fyrsta lagi grein sem fjallar um flóknar greiningar sem SEGES hefur ráðist í á málefninu og þar sem fram kemur að nokkur vinningur felist í þessari aðferð. Hins vegar set ég með lengri grein um sama málefni sem kom út á síðasta ári.

Almennt séð telja menn að ferskfóðrunin kosti í kringum 10% uppskeru í samanburði við 5 slætti þar sem menn gera ráð fyrir grasið sé slegið oftar (6-8 slættir) og grasið sé því yngra/minna vaxið við slátt.

Á móti kemur að með ferskfóðrun sparast 11-16% öndunar og blaðtap samanborið við forþurrkun og rúllun auk þess sem að menn sleppa við verkunartap sem menn áætla ca 5%.

Mér finnst sérstaklega áhugavert að sjá að menn eru að reyna að áætla hversu mikið uppskerutap fylgi því að slá 6-8 sinnum í stað 5 slátta vegna aukinnar umferðar/þjöppunar. Þarna áætla menn að aukið þjöppunartap geti legið á bilinu 8-13% umfram hefðbundna 5 slátta heyskapinn í DK. Vona að þetta tiltekna atriði sýni mönnum hversu alvarlega menn taka áhrif jarðvegsþjöppunar á uppskeru og lifun grasa.

Annars væri áhugavert að gera rannsókn á kostum ferskfóðrunar fyrir okkar aðstæður. Við vitum að nú þegar eru nokkrir bændur hérlendis sem stunda ferskfóðrun á grasi að einhverju leiti og væri forvitnilegt ef þeir væru til í að deila reynslusögum sínum með okkur.

Mín tilfinning er að vegna krefjandi veðurfars og takmarkana sem fylgja nýtingu beitar a mjaltaþjónabúum geti verið verulegur ávinningur í ferskfóðrun með grasi og stytta þá útiveru gripanna á hverjum degi.

En okkur vantar rannsóknir – tilfinning getur verið mjög óáreiðanleg í svona málefnum.

Aukið hlutfall gróffóðurs í heildarfóðri mjólkurkúa

Það er ekki bara hérlendis sem menn velta fyrir sér hvernig hægt sé að auka hlutfall gróffóðurs í heildarfóðri mjólkurkúa. Við sjáum sömu umræðu um alla Evrópu og forsvarsmenn bænda á hinum Norðurlöndunum eru talsvert uppteknir af þessum pælingum. Þó t.d. á Norðurlöndunum sé framleitt mikið af korni og því ekki verið að flytja það um langan veg vilja menn einnig draga úr notkun þess við fóðrun nautgripa. Í þessu samhengi horfa menn talsvert á hversu miklum matvælum nýtanlegum til manneldis sé varið til framleiðslu á mjólk og kjöti.

https://www.ja.se/artikel/2226306/biprodukter-i-stllet-fr-soja-och-spannml-till-mjlkkor.html?fbclid=IwAR2KXY3gsqil5Elv4tZgRgEsmLJZH15zpHliUf6Au_KEvvzWUcys5zFyv8w

Á mannamáli þýðir þetta að ef menn nota fleiri orkueiningar af korni til framleiðslu á 1l af mjólk eða 1 kg af kjöti þá er um neikvæðan orkubalans að ræða – þ.e. það er varið meira magni af nýtanlegum matvælum til manneldis til að búa til 1 l af mjólk eða 1 kg af kjöti en sem nemur orkueiningunum í mjólkinni. Ég óttast að miðað við mjög umfangsmikla notkun kjarnfóðurs til mjólkurframleiðslu hérlendis megi ganga út frá því að stór hluti innlendrar mjólkur sé með neikvæðan orkubalans samkvæmt þessari skilgreiningu. Það er áhugavert að sjá að það er líka talsverð gróska á hinum Norðurlöndunum í rannsóknum sem beinast að hvort ekki sé unnt að nota ýmsar aukaafurðir, sem eru vannýttar í dag, í staðinn fyrir Korn og Soja sem gætu þá fullnægt næringarþörfum gripanna með gróffóðrinu. Framboð hérlendis af ýmiskonar aukaafurðum sem nýtanlegar eru í fóður gripa er væntanlega mun minna en víða erlendis en á móti kemur að við eigum gríðarlegt magn af grasi sem er stórlega vannýtt auðlind.

Lesa frétt Jordbruks aktuellt hér

Samanburður á grasi og maís

Hér er stutt grein frá Danmörku þar sem SEGES eru að bera saman kostnað pr. FE í grasi og Maís árið 2019.

Maísinn kemur betur út en kostnaður við ræktun hans er um 21 kr/FE á meðan grasið kostar um 27kr/FE. Einnig kemur þarna fram að meðaluppskera á túnum hjá þeim er um 9.108FE.

Það væri nú gaman ef okkur færi að lánast að taka saman á breiðum grunni raunhæfar tölur um uppskeru og raunkostnað við grasræktina hérlendis svo við getum farið að vinna markvisst í að bæta árangur okkar á þessu sviði-sem er grundvöllurinn að arðbærri mjólkurframleiðslu hérlendis til framtíðar.

Of hátt próteininnihald í fóðri eykur „ammoníaksmengun“ frá mjólkurkúm.

Samkvæmt þessari frétt hér að neðan sem birtist í Landsbladet þá er RML þeirra Dana farið að mæla með að ekki sé meira en17% hráprótein í fóðri mjólkurkúa og er talað um að trúlega séu um 50% danskra kúabænda með hærra hlutfall en þetta og séu því að stuðla að meiri ammoníaksmengun frá framleiðslu sinni en þörf er á.

Í fréttinni er talað um að það séu sérstaklega bændur með hátt hlutfall af grasi í fóðrinu sem séu með hærra hlutfall en umrædd 17% og þurfi því að endurskoða fóðuráætlanir sínar.

Veit ekki til að neinar slíkar hugmyndir séu komnar á blað hérlendis en það skaðar samt ekki fyrir þá bændur sem vilja stunda sinn rekstur af ábyrgð að gefa þessu gaum og skoða hvert hrápróteinhlutfallið er í fóðrinu og hvort hægt sé að lækka það. Danirnir tala líka um að það geti verið fjárhagslegur ávinningur í því fyrir bændur að lækka hlutfall hrápróteins ef það er mjög hátt sem ætti einnig að vera hvetjandi.

Kostnaður á bakvið rúllur og fóðrunarverðmæti

Það er algengur misskilningur þegar talað er um að hækka hlutfall gróffóðurs í heildarfóðri nautgripa að það þurfi að þýða um leið aukna korn eða repjurækt. Vissulega þurfum við að stefna að aukningu akuryrkju til lengri tíma litið en það gerist ekki í einum grænum.

Við getum til að byrja með bætt verulega árangur okkar í að tryggja gæði þess fóðurs sem við öflum sjálf.

Í margumræddum upplýsingum sem koma fram í Grovfor 2020 þá kemur fram m.a. að meðalframleiðslukostnaður pr rúllubagga í Noregi er í kringum 7.000kr. Þar vantar reyndar inn í kostnað vegna landleigu sem við getum sett til að byrja með að sé 1.000 kr á rúllu. Þetta þýðir að á bak við hvern rúllubagga sem við búum til er meðalkostnaður í kringum 8.000 á rúlluna. Ef vel tekst til við verkun rúllunar og við erum með gæðahráefni í henni þá er verðmæti þessarar rúllu kannski 12-15.000 fyrir mjólkurframleiðsluna á meðan að sama rúlla er kannski ekki nema 6.000 kr virði til mjólkurframleiðslu ef grasið sem fór í hana er af litlum gæðum, verkun tekst illa o.s.frv. Þarna getur legið mikið svigrúm til að gera betur og samkvæmt þessu eru kannski sumar rúllur í stæðum bænda alls ekki að borga þann kostnað tilbaka sem fór í að búa þær til.

Þekkir þú kostnaðinn á bakvið rúllurnar af þínum túnum og hvert fóðrunarverðmæti þeirra er?

Faltkrassing – nytjaplanta – olía

Í þessari frétt sem birtist á vef ATL í dag er umfjöllun um mjög spennandi tilraunir á nýrri nytjaplöntu í Svíþjóð sem gæti hentað okkur mjög vel líka.
Plantan heitir Fältkrassing og er af Krossblómaætt og er talsverð skyld Sinnepsplöntunni. Plantan er um 25sm há og vex villt í Svíþjóð en sænskir vísindamenn hafa í nokkur ár unnið að framræktun plöntunnar til að auka fræuppskeru hennar, en fræið er mjög olíuríkt líkt og Repju og Nepjufræ auk þess sem hratið hentar vel sem próteingjafi í fóður. Meðal annars eru hugmyndir um að þessi planta geti farið í stórtæka ræktun í N Svíþjóð og olían yrði nýtt í framleiðslu á umhverfisvænni Diselolíu en hratið nýst í stað innflutts Soja í skepnufóður.
Tilraunaræktun sem stendur yfir í Norrbotten sem er nyrsta fylki Svíþjóðar miða að því að rækunin sé tvíær og að fræunum sé sáð að vori með Byggi og Byggið skili fullri uppskeru ár 1 en ár 2 taki Fältkrassing við og skili 3,5-5 tonna fræuppskeru þá um haustið.
Helsta ástæðan fyrir því að menn sýna þessari plöntu áhuga í Svíþjóð er að það eru mun minni sjúkdómavandamál við ræktun hennar en Repju og Nepju hún er með mjög hátt vetrarþol og auk þess er uppskeran af henni mjög góð í nyrstu héruðum Svíþjóðar í samanburði við Repju og Nepju.
Það er ljóst að það er mikið verk óunnið í framræktun þessarar plöntu áður en hún verður tilbúin á almennan markað en það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu því þarna gæti verið að koma fram ný planta sem hentar mjög vel við okkar aðstæður.
Fältkrassing kan ge bonden både bränsle och foder