Eins og áður hefur komið fram þá leggja forsvarsmenn norskra bænda mikla áherslu á að hækka hlutfall innlends gróffóðurs í fóðri mjólkurkúa. Enda skipti það miklu máli til að tryggja sterka ímynd norskra afurða í samkeppni við ódýra innflutta vöru. Það er mjög gagnlegt fyrir okkur að horfa til Noregs með tilliti til leiða til að bæta okkar stöðu þar sem aðstæður varðandi gróffóðurræktun eru að mörgu leiti nokkuð líkar.
Í nýjasta tímariti Buskap er talsverð umfjöllun um þetta verkefni og meðal annars viðtal við Leif Sverre Lökken sem er kúabóndi sem hefur náð góðum árangri í að hækka gróffóðurhlutfallið hjá sér. Hlutfallið er í dag komið í 25% kjarnfóður pr framleiddan líter en hann stefnir enn hærra. Væntanlega er talsverður hluti kjarnfóðursins af norskum uppruna þannig að hlutfall innlends fóðurs af heildarfóðri gripanna er örugglega mjög hátt.
Það er áhugavert að sjá að gróffóðurát kúnna hjá honum er 96MJ pr.kýr á dag (13,5FEm) meðan að meðaltalið fyrir svæðið og Noreg í heild er 70MJ. Það væri áhugavert ef einhver gæti deilt sambærilegum tölum héðan.
Með greininni fylgja nokkur góð ráð um hvernig eigi að ná hárri % gróffóðurs í heildarfóðri kúnna sem koma hér þýdd.
- Slá snemma til að tryggja hátt orkuinnihald í grasinu
- Jöfn fóðrun þar sem grasi frá mismunandi sláttutímum er blandað saman
- Hafa sömu gæði af fóðrinu á öllum fóðurgangnum til að forðast val gripa
- Tryggja að það sé alltaf gróffóður aðgengilegt fyrir gripina á fóðurgangnum
- Fóðra að lágmarki kvölds og morgna
- 1 átpláss fyrir hvern grip til að tryggja jafn aðgengi gripanna
- Hreinsa fóðurganginn á hverjum morgni
- Hafa geldkýr sér til að tryggja að þær verði ekki of feitar við burð