Category: Túnrækt

Jarðvegsþjöppun

Núna þegar margir eru annaðhvort byrjaðir að huga að því að keyra húsdýraáburði á túnin, get ég ekki stillt mig um að birta þessa umfjöllun úr Norsk Landbrug þar sem er verið að fjalla um það mikla tjón sem þjöppun hefur á uppskeru túna og möguleika til að minnka það.

Á meðfylgjandi myndum má sjá vel hversu mikið tjón hefur orðið á yfirborði túnsins við það eitt að safna rúllunum heim. Á neðri myndinni er mönnum síðan bent á að með því að vera með ákveðna keyrsluleið og keyra svo út af henni styðstu leiðir er hægt að minnka það svæði sem verður fyrir tjóni mikið.

Ef hægt er að koma því við er mikill ávinningur í að hafa keyrsluvegi inn og út af túnum í báðum endum því þá sleppa menn við heilmikið af keyrslu með fulla haugsugu eða rúlluvagn eftir túninu.

Það sem við áttum okkur almennt ekki á þegar tjón af völdum jarðvegsþjöppunar er rætt er hversu víðtækt tjónið er. En í erlendum rannsóknum hafa menn fengið staðfest að uppskerutap af völdum þjöppunar er algengt á bilinu 10-35%. Ef við setjum tölur á tapið til að skilja þetta betur og segjum að góð uppskera af túni sé 6.000FEm á hektara og við missum 20% af uppskerunni vegna þjöppunar þá erum við að tapa 1.200 FEm á hektara. Ef við gefum okkur svo að verðmæti FEm í góðu gróffóðri sé 30kr þá er tjónið í krónum pr ha. 36.000 sem gerir 3,600.000 á 100ha.

Jarðvegur er sérstaklega viðkvæmur fyrir þjöppun á vorin og því mikilvægt að menn fari ekki of snemma með þung tæki út á tún. Eins skiptir miklu að vera með góð og breið dekk og minnka loftþrýstinginn í þeim eins og hægt er.

Eitt af því sem við áttum okkur yfirleitt ekki á er að þegar tún þjappast rennur vatn hægar og verr um jarðveginn og túnið verður því blautara sem eykur áhættuna af frekari þjöppun verulega. Samtímis gerist það að rótarkerfi grasanna verður grynnra og veikara sem eykur svo hættuna á dauða nytjagrasanna. Víða erlendis er áhugi manna á að keyra alltaf í sömu hjólförunum að aukast mjög og sætta sig þá við að uppskera í hjólförunum sé lítil en þeim mun meiri annars staðar í túninu. Til að vinna á móti þjöppun í þessum hjólförum er algengt að menn fari með loftunarplóga um hjólförinn 1-2svar á sumri.

Sykurinnihald í 1 slætti af grasi með Rauðsmára hjá lífrænum dönskum mjólkurframleiðendum

Hér er mjög áhugaverð grein frá Danmörku þar sem fjallað er um mjög hátt sykurinnihald í 1 slætti af grasi með Rauðsmára hjá lífrænum dönskum mjólkurframleiðendum í ár.

Orkuinnihald grassins er það hátt að kg þurrefni af fyrsta slætti er með hærra orkuinnihald en kg þurrefnis af völsuðum Höfrum.Helsta ástæðan sem er nefnd fyrir þessu háa sykurinnihaldi í grasinu í ár er mjög kalt vor á danskan mælikvarða.

Í greininni kemur fram að orkuinnihaldið í kg þurrefnis sé 6,52 MJ og eins og sjá má af meðfylgjandi línuritum þá er þetta mun hærra orkugildi en undanfarin ár.

Taka skal fram að þessar tölur eru meðaltal 230 lífrænna mjólkurframleiðenda.

Er eitthvað sem mælir á móti því að við getum búið til svona orkuríkt fóður á okkar túnum ef við vöndum okkur vel eða erum við kannski að ná sambærilegum árangri nú þegar?

Vorsáður rúgur

Hér er mjög áhugaverð grein úr Landbrugsavisen Kvæg um hversu góður vorsáður Rúgur er til beitar. Lífrænir bændur í Danmörku hafa notað Rúginn með góðum árangri í fjölda ára sem beitarplöntu – oft í sáðskiptum þegar komin hefur verið ræktunarþreyta í tún með Rígresi og Rauðsmára.

Meltanleiki Rúgsins er yfir 90% FEm svipað og í toppgrasi en sætleiki meiri (sykur um 17%) og prótein í kringum 30% allt gildi sem eru jöfn og/eða hærri en þau geta best orðið í bestu túnum með Rýgresi og Rauðsmára.

Ég hef heyrt af nokkrum bændum sem notuðu vetrarrúg sem vorbeit en það væri gaman að heyra hversu margir stundi slíkt enn. Eins væri gaman að heyra ef menn muna eftir einhverjum nýlegum tilraunum með sáningu Vorrúgs til beitar.

Eitt af því sem við þurfum að horfa meira til, ef við viljum í alvöru auka innlenda fóðurframleiðslu, er að finna leiðir til að nýta beitina mun betur og draga um leið verulega úr kaupum á aðkeyptu kjarnfóðri og próteini yfir beitartímann. Kannski getur Rúgurinn hjálpað til við það en þangað til það skýrist þá getum við allavega gert mun betur í ræktun Rauðsmára í túnum.

Er gróffóður lykillinn af því að hækka hlutfall innlends fóðurs ?

Áhugaverð grein í Norsk Landbrug þar sem segir að gróffóðrið sé lykillinn að hækkuðu hlutfalli norsks fóðurs hjá mjólkurkúm.

Stjórnin í Tyne sem er MS þeirra norsku hefur sett sér langtímamarkmið um að allt fóður fyrir norskar mjólkurkýr skuli vera framleitt í Noregi. En staðan í dag er að um 20% af fóðri mjólkurkúa er innflutt.

Stjórnendur Tyne telja að þetta veiki ímyndi norsku framleiðslunnar og nauðsynlegt sé að tryggja að fóðrið verði að öllu leiti norskt til að viðhalda sérstöðu norskrar framleiðslu.

Hjá Tyne er það að tryggja að framleiðslan byggi alfarið á norsku fóðri liður í því að styrkja stöðu mjólkurinnar í stigvaxandi samkeppni við innfluttar vörur enda hafi norskir neytendur meiri trú heilnæmi og gæðum á innlendri framleiðslu sem byggi á innlendum hráefnum en innfluttum vörum.

Tyne rekur eigin ráðgjafamiðstöð sem aðstoðar bændur á ýmsan hátt við að bæta árangur sinn í framleiðslunni. Telja menn þar á bæ að lykillinn að hækkuðu hlutfalli norskra hráefna liggi í bættri nýtingu gróffóðurs enda hafi menn vanrækt mat og mælingar á uppskeru og gæðum gróffóðurs í samanburði við t.d. mælingar á kornuppskeru. Þessu vilja menn breyta og gera aðgengilega þá þekkingu sem er til um gróffóðurrækt og hvernig megi hámarka árangur í henni og telja að með réttri nálgun þurfi hækkað hlutfall gróffóðurs ekki að minnka nyt gripanna.

Er ekki tímabært að við förum að móta sambærilega stefnu hérlendis og stíga fyrstu skrefin út úr þeirri glórulausu þróun sem hér ríkir þar sem hlutfall innflutts fóðurs hefur bara farið hækkandi. Þróun sem engin bóndi er stoltur af en menn virðast samt ekki almennt vilja takast á við?

Minnkað umhverfisspor bónda í Noregi

Hér fyrir neðan er áhugaverð grein úr Norsk Landbrug um hann Jóhannes, norskan bónda, sem er vel meðvitaður um umhverfismál og hefur á síðustu 10 árum náð mjög góðum árangri í að minnka umhverfisspor framleiðslu sinnar.

Hann hefur meðal annars dregið úr innkaupum á köfnunarefnisáburði um 30% (úr130kg/N.ha í 100kg/N.ha), hækkað nyt gripanna úr 8000 í 9000 l án þess að auka innkeypt kjarnfóður.

Það einkennir flestar þeirra aðgerða sem Jóhannes hefur ráðist í að þær gagnast bæði fjáhagnum og umhverfinu. T.d. sá hann að það kostaði hann um 15.000 kr á klst að plægja og útfrá því sá hann að ef hann myndi hætta að nota plóginn gæti hann haft sömu afkomu af kornökrunum sínum þó uppskeran minnkaði um allt að 1.000kg á ha. Sem varð reyndar ekki raunin því með því að tileinka sér nýjustu þekkingu frá Landbúnaðarháskólanum á Ási varð minnkunin mun minni.

Eitt af því fyrsta sem Jóhannes gerði eftir að hann tók við fyrir 10 árum var að kaupa sér slöngudreifibúnað til að hámarka nýtingu húsdýraáburðarins þar sem hann sá að með þessari tækni gæti hann bæði bætt nýtingu húsdýraáburðarins mikið auk þess að spara mikinn tíma því þegar hann byrjaði tók það hann fjórtán daga vor og haust að keyra út húsdýraáburðinum. Með slöngubómunni dreifir hann í dag 30 tonnum/ha á túnin á vorin, 30 tonnum/ha eftir fyrsta slátt.

Diselnotkunin hefur minnkað úr 17 l/ha fyrir 10 árum þegar hann tók við niður í 7l/ha þrátt fyrir að hann hafi tekið yfir rúllun og pökkun árið 2012 sem nágranni hans sá um fram að því.

Árið 2015 breytti Jóhannes mjaltaaðstöðunni í fjósinu hjá sér úr mjaltagryfju yfir í mjaltaþjón og telur þá breytingu hafa skipt miklu.

Nytin hjá honum fór úr að liggja í kringum 8000l upp í 9000l síðustu 4 ár. Á sama tíma hefur kjarnfóðurhlutfallið lækkað úr rúmum 30% niður í 25% í dag. Hann segist hafa tekið eftir því að bændur hallist að því að gefa of mikið kjarnfóður því það sé svo einfalt að bæta 1 eða 2 kg/dag af kjarnfóðri við til að gripirnir fái nú örugglega nóg. Aftur á móti sé mjög auðvelt að stýra þessu nákvæmlega með mjaltaþjóni sem mæli nytina nákvæmlega við hverjar mjaltir. Eftir að mjaltaþjónninn var settur upp ákvað hann líka að prófa sig áfram með því að minnka kjarnfóðurgjöfina hjá hámjólka kúm og komst að því að í stað þess að nytin myndi minnka, sem hann átti von á, jókst nytin sem bendir til þess að hann var að nota of mikið kjarnfóður í fóðruninni áður. Helsta ástæðan fyrir að hann ákvað að prófa þetta var að hann hafði tekið eftir að hluti gripanna var þunnan skít og eins fann hann að það var lykt af súrri vömb í fjósinu, sem hann telur skýr merki á of sterkri fóðrun í fjósinu og að vömb gripanna sé ekki í kjörstöðu.

Jóhannes hefur dregið að sér miklar upplýsingar um hvernig búa skuli til gott gróffóður en hann segir að það sé langt í frá auðvelt að nýta alla þá þekkingu í praksis. En samkvæmt mælingum sem gerðar voru árið 2016 með aðstoð ráðunauta frá Tine komust menn að því að orkumagnið í gróffóðrinu sem hann uppskar + kjarnfóðrið að frádreginni orkunni sem hann framleiddi í mjólkinni sýndi að búið hans var með mjög góða orkunýtingu fóðurs og að orkunýtingin lág nánast á pari við fyrirfram sett markmið hans.

Góður árangur í gróffóðurframleiðslu hefur þýtt að hann kaupir í dag inn sama magn af kjarnfóðri og hann gerði árið 2010 þrátt fyrir að framleiðslan hafi aukist úr 210.000l í 250.000lítra á sama tímabili.Jóhannes segir að síðustu 2 ár hafi verið erfið með tilliti til að lækka kjarnfóðurhlutfallið frekar vegna mikilla þurrka árið 2018 og eftirkasta þess árið 2019.

Til að hámarka gæði gróffóðursins síns þá leitast Jóhannes eftir því að slá snemma og segir að í sjálfu sér sé einfalt að sleppa þörfinni fyrir soja (prótein) í kjarnfóðrinum með því að slá snemma en Jóhannes leitast við að slá fyrsta slátt í kringum viku fyrir skrið og telur það um 60% af gróffóðurmagninu. Seinni sláttur er aftur á móti tekin um skrið til að fá meiri struktur (tréni) í fóðrið.Meðaluppskerna hjá Jóhannesi í túnræktinni liggur um 7500 fóðureiningar/ha.

Hvenær er grasið verðmætast?

Ef við erum með Vallarfoxgras sem lykilgrastegund í okkar bestu túnum þá skiptir miklu máli að sláttutíminn sé réttur ef hámarka á FEm og próteininnihald.

Það gerir okkur verkefnið mun léttara en ella að það er góð fylgni á milli FEm/kg þe og meltanlegs próteins í Vallarfoxgrasi eins og sjá má á meðfylgjandi töflu sem eins og margt annað sem ég vitna í er sótt í fræðsluefni frá Grovfor 2020.

Samkvæmt niðurstöðum Norðmannanna er besti sláttutíminn með tilliti til orkuinnihalds pr. kg þurrefni þegar er farið að sjá á axið á ca 10% stráana en þá er orkuinnihaldið ca 0.90FEm pr.kg þe. ef menn bíða aðeins viku lengur og farið er að sjá í flest öxin þá er orkugildið dottið niður í ca 0.85FEm og innihald meltanlegs próteins hefur snarfallið. Þannig að samkvæmt niðurstöðum þeirra á að slá um leið og er farið að sjá í axið á fyrstu stráunum og jafnvel fyrr ef menn vilja ekki lenda í því að próteinið sé farið að minnka of mikið í því sem menn slá seinna – þ.e. ef menn geta ekki slegið allt í einu.

Burtséð frá ofangreindu er fjöldi annarra þátta sem hafa áhrif á gæði uppskerunnar t.d. sýrustig jarðvegs og áburðargjöf en tökum það fyrir seinna.

Lesa meira

Aukið hlutfall gróffóðurs í heildarfóðri mjólkurkúa

Það er ekki bara hérlendis sem menn velta fyrir sér hvernig hægt sé að auka hlutfall gróffóðurs í heildarfóðri mjólkurkúa. Við sjáum sömu umræðu um alla Evrópu og forsvarsmenn bænda á hinum Norðurlöndunum eru talsvert uppteknir af þessum pælingum. Þó t.d. á Norðurlöndunum sé framleitt mikið af korni og því ekki verið að flytja það um langan veg vilja menn einnig draga úr notkun þess við fóðrun nautgripa. Í þessu samhengi horfa menn talsvert á hversu miklum matvælum nýtanlegum til manneldis sé varið til framleiðslu á mjólk og kjöti.

https://www.ja.se/artikel/2226306/biprodukter-i-stllet-fr-soja-och-spannml-till-mjlkkor.html?fbclid=IwAR2KXY3gsqil5Elv4tZgRgEsmLJZH15zpHliUf6Au_KEvvzWUcys5zFyv8w

Á mannamáli þýðir þetta að ef menn nota fleiri orkueiningar af korni til framleiðslu á 1l af mjólk eða 1 kg af kjöti þá er um neikvæðan orkubalans að ræða – þ.e. það er varið meira magni af nýtanlegum matvælum til manneldis til að búa til 1 l af mjólk eða 1 kg af kjöti en sem nemur orkueiningunum í mjólkinni. Ég óttast að miðað við mjög umfangsmikla notkun kjarnfóðurs til mjólkurframleiðslu hérlendis megi ganga út frá því að stór hluti innlendrar mjólkur sé með neikvæðan orkubalans samkvæmt þessari skilgreiningu. Það er áhugavert að sjá að það er líka talsverð gróska á hinum Norðurlöndunum í rannsóknum sem beinast að hvort ekki sé unnt að nota ýmsar aukaafurðir, sem eru vannýttar í dag, í staðinn fyrir Korn og Soja sem gætu þá fullnægt næringarþörfum gripanna með gróffóðrinu. Framboð hérlendis af ýmiskonar aukaafurðum sem nýtanlegar eru í fóður gripa er væntanlega mun minna en víða erlendis en á móti kemur að við eigum gríðarlegt magn af grasi sem er stórlega vannýtt auðlind.

Lesa frétt Jordbruks aktuellt hér

Samanburður á grasi og maís

Hér er stutt grein frá Danmörku þar sem SEGES eru að bera saman kostnað pr. FE í grasi og Maís árið 2019.

Maísinn kemur betur út en kostnaður við ræktun hans er um 21 kr/FE á meðan grasið kostar um 27kr/FE. Einnig kemur þarna fram að meðaluppskera á túnum hjá þeim er um 9.108FE.

Það væri nú gaman ef okkur færi að lánast að taka saman á breiðum grunni raunhæfar tölur um uppskeru og raunkostnað við grasræktina hérlendis svo við getum farið að vinna markvisst í að bæta árangur okkar á þessu sviði-sem er grundvöllurinn að arðbærri mjólkurframleiðslu hérlendis til framtíðar.

Of hátt próteininnihald í fóðri eykur „ammoníaksmengun“ frá mjólkurkúm.

Samkvæmt þessari frétt hér að neðan sem birtist í Landsbladet þá er RML þeirra Dana farið að mæla með að ekki sé meira en17% hráprótein í fóðri mjólkurkúa og er talað um að trúlega séu um 50% danskra kúabænda með hærra hlutfall en þetta og séu því að stuðla að meiri ammoníaksmengun frá framleiðslu sinni en þörf er á.

Í fréttinni er talað um að það séu sérstaklega bændur með hátt hlutfall af grasi í fóðrinu sem séu með hærra hlutfall en umrædd 17% og þurfi því að endurskoða fóðuráætlanir sínar.

Veit ekki til að neinar slíkar hugmyndir séu komnar á blað hérlendis en það skaðar samt ekki fyrir þá bændur sem vilja stunda sinn rekstur af ábyrgð að gefa þessu gaum og skoða hvert hrápróteinhlutfallið er í fóðrinu og hvort hægt sé að lækka það. Danirnir tala líka um að það geti verið fjárhagslegur ávinningur í því fyrir bændur að lækka hlutfall hrápróteins ef það er mjög hátt sem ætti einnig að vera hvetjandi.

Kostnaður á bakvið rúllur og fóðrunarverðmæti

Það er algengur misskilningur þegar talað er um að hækka hlutfall gróffóðurs í heildarfóðri nautgripa að það þurfi að þýða um leið aukna korn eða repjurækt. Vissulega þurfum við að stefna að aukningu akuryrkju til lengri tíma litið en það gerist ekki í einum grænum.

Við getum til að byrja með bætt verulega árangur okkar í að tryggja gæði þess fóðurs sem við öflum sjálf.

Í margumræddum upplýsingum sem koma fram í Grovfor 2020 þá kemur fram m.a. að meðalframleiðslukostnaður pr rúllubagga í Noregi er í kringum 7.000kr. Þar vantar reyndar inn í kostnað vegna landleigu sem við getum sett til að byrja með að sé 1.000 kr á rúllu. Þetta þýðir að á bak við hvern rúllubagga sem við búum til er meðalkostnaður í kringum 8.000 á rúlluna. Ef vel tekst til við verkun rúllunar og við erum með gæðahráefni í henni þá er verðmæti þessarar rúllu kannski 12-15.000 fyrir mjólkurframleiðsluna á meðan að sama rúlla er kannski ekki nema 6.000 kr virði til mjólkurframleiðslu ef grasið sem fór í hana er af litlum gæðum, verkun tekst illa o.s.frv. Þarna getur legið mikið svigrúm til að gera betur og samkvæmt þessu eru kannski sumar rúllur í stæðum bænda alls ekki að borga þann kostnað tilbaka sem fór í að búa þær til.

Þekkir þú kostnaðinn á bakvið rúllurnar af þínum túnum og hvert fóðrunarverðmæti þeirra er?