Category: Vélar

NH sjálfkeyrandi bindivél

Ekki nýjasta tækni hér á ferðinni og frekar ólíklegt að þessi útfærsla verði nokkurn tímann vinsæl. Þessi útfærsla af sjálfkeyrandi NH baggabindivél var smíðuð í 430 eintökum árið 1965 og fór líklega eingöngu á heimamarkað í USA.Það er samt sem áður ágætt að halda því til haga að það er töluvert selt af smábaggabindivélum í heiminum á ári hverju og víða í Evrópu eru smábaggar seldir í miklu magni til hestamanna oft á tíðum á háu verði. Minni á snapp sem við sendum frá Kanada í fyrra þegar ég var fararstjóri í útskriftarferð Hvaneyringa og við heimsóttum heysala sem tók heyið heim með heyhleðsluvagni. Fullþurrkaði með heitu lofti í hlöðu og batt síðan í smábagga sem hann seldi til USA á fínu verði.

Sláttuvélar – Keflaknosarar

Keflaknosarar.
Knosarar með keflum í stað tinda eins og við þekkjum hafa verið í boði hjá flestum framleiðendum sláttuvéla í mörg ár en yfirleitt hefur verið talað um að þeir hentuðu best þegar verið væri að knosa mjög hávaxið og gróft gras eins og t.d. Refasmára. Í þessari mjög svo áhugaverðu grein er rætt við Sören bónda á N Sjálandi í Dk sem sérhæfir sig í framleiðslu á hágæðaheyi fyrir hesta. Hann er með um 150 ha tún í ræktun sem hann rúllar í þurrt hestahey með í kringum 8,5% rakastig sem hann selur bæði innanlands og flytur um 15-20% af framlieðslunni út til nágrannalanda.
Sörenn vill meina að þessi gerð knosara dragi mjög úr hættuni á molnun og tapi á fínustu blöðunum sem alltaf tapist að einhverju leiti með hefðbundnu knosurunum en stráin séu samt sködduð það mikið að flýtiáhrifin á þurrkun heysins séu sambærileg. Það væri gaman að vita hvort einhverjir hafa reynslu af notkun þessara knosara hérlendis og væru þá til í að deila þeirri reynslu með okkur.
Annars er margt annað fróðlegt í þessu viðtali við Sören. Meðal annars að hann ræktar talsvert af Höfrum sem hann slær fljótlega eftir skrið – áður en kornið byrjar að safna í sig Sterkju – og þurrkar sem hey. Helsta ástæðan fyrir vinsældum Hafranna er að þeir innihalda Betaglúkan sem er talið mjög hollt fyrir hesta líkt og fyrir mannfólk og því væntanlega dýrasta heyið hans. Þegar hann vinnur túnin upp þá skjólsáir hann Höfrum með grasinu og nær þá yfirleitt grasuppskeru líka seinnipartinn á fyrsta sumrinu.
Markmið Sörens í heyskapnum er að hreyfa grasið sem minnst á velli til að lágmarka jarðvegsmengun og töp. Hann rúllar síðan grasinu áður en það verður fullþurrt og klárar að þurrka það með nokkurs konar súgþurrkunarkerfi sem blæs í gegnum rúllurnar (niður í 8,5% rakastig) inni í hlöðu. Með þessari aðferðafræði telur Sören að sér takist betur að halda græna litnum á heyinu sem skipti miklu máli þegar kemur að gæðaímynd vörunnar. Það hey sem hann ætlar að geyma lengra fram á veturinn pakkar hann inn í aðeins plast til að viðhalda litnum og ferskleika fóðursins.

Rakstrarvél – Respiro

Margir áhugamenn um vandaða heyverkun telja þessa tækni næstu byltingu í rakstri á grasi. Frumkvöðullinn í þessari hönnun heitir Tomas Reiter og var einu sinni sölustjóri hjá Pöttinger áður en hann ákvað að fylgja draumnum sýnum og hefja eigin framleiðslu á þessari byltingarkenndu rakstrarvél sem hann kallar Respiro.
Byltingin sem þessi aðferð boðar felst í að þessi rakstrarvél lyftir grasinu upp beint af teignum og flytur það á færibandi til hægri eða vinstri í stað þess að á hefðbundnum rakstrarvélum draga tindarnir grasið eftir yfirborðinu til hliðar sem hefur alltaf í för með sér einhverja mengun grassins auk þess sem hætta á tapi vegna molnunar er nokkur..
Fleiri framleiðendur bjóða upp á svipaðar lausnir í dag en þar sem Tomas gekk frá nokkrum einkaleyfum á ákveðnum atriðum í hönnun vélanna er erfitt fyrir aðra framleiðendur að ná fram öllum kostum þessarar hönnunar.

Heyhleðsluvagn Bergmann