Hér fyrir neðan er áhugaverð grein úr Norsk Landbrug um hann Jóhannes, norskan bónda, sem er vel meðvitaður um umhverfismál og hefur á síðustu 10 árum náð mjög góðum árangri í að minnka umhverfisspor framleiðslu sinnar.
Hann hefur meðal annars dregið úr innkaupum á köfnunarefnisáburði um 30% (úr130kg/N.ha í 100kg/N.ha), hækkað nyt gripanna úr 8000 í 9000 l án þess að auka innkeypt kjarnfóður.
Það einkennir flestar þeirra aðgerða sem Jóhannes hefur ráðist í að þær gagnast bæði fjáhagnum og umhverfinu. T.d. sá hann að það kostaði hann um 15.000 kr á klst að plægja og útfrá því sá hann að ef hann myndi hætta að nota plóginn gæti hann haft sömu afkomu af kornökrunum sínum þó uppskeran minnkaði um allt að 1.000kg á ha. Sem varð reyndar ekki raunin því með því að tileinka sér nýjustu þekkingu frá Landbúnaðarháskólanum á Ási varð minnkunin mun minni.
Eitt af því fyrsta sem Jóhannes gerði eftir að hann tók við fyrir 10 árum var að kaupa sér slöngudreifibúnað til að hámarka nýtingu húsdýraáburðarins þar sem hann sá að með þessari tækni gæti hann bæði bætt nýtingu húsdýraáburðarins mikið auk þess að spara mikinn tíma því þegar hann byrjaði tók það hann fjórtán daga vor og haust að keyra út húsdýraáburðinum. Með slöngubómunni dreifir hann í dag 30 tonnum/ha á túnin á vorin, 30 tonnum/ha eftir fyrsta slátt.
Diselnotkunin hefur minnkað úr 17 l/ha fyrir 10 árum þegar hann tók við niður í 7l/ha þrátt fyrir að hann hafi tekið yfir rúllun og pökkun árið 2012 sem nágranni hans sá um fram að því.
Árið 2015 breytti Jóhannes mjaltaaðstöðunni í fjósinu hjá sér úr mjaltagryfju yfir í mjaltaþjón og telur þá breytingu hafa skipt miklu.
Nytin hjá honum fór úr að liggja í kringum 8000l upp í 9000l síðustu 4 ár. Á sama tíma hefur kjarnfóðurhlutfallið lækkað úr rúmum 30% niður í 25% í dag. Hann segist hafa tekið eftir því að bændur hallist að því að gefa of mikið kjarnfóður því það sé svo einfalt að bæta 1 eða 2 kg/dag af kjarnfóðri við til að gripirnir fái nú örugglega nóg. Aftur á móti sé mjög auðvelt að stýra þessu nákvæmlega með mjaltaþjóni sem mæli nytina nákvæmlega við hverjar mjaltir. Eftir að mjaltaþjónninn var settur upp ákvað hann líka að prófa sig áfram með því að minnka kjarnfóðurgjöfina hjá hámjólka kúm og komst að því að í stað þess að nytin myndi minnka, sem hann átti von á, jókst nytin sem bendir til þess að hann var að nota of mikið kjarnfóður í fóðruninni áður. Helsta ástæðan fyrir að hann ákvað að prófa þetta var að hann hafði tekið eftir að hluti gripanna var þunnan skít og eins fann hann að það var lykt af súrri vömb í fjósinu, sem hann telur skýr merki á of sterkri fóðrun í fjósinu og að vömb gripanna sé ekki í kjörstöðu.
Jóhannes hefur dregið að sér miklar upplýsingar um hvernig búa skuli til gott gróffóður en hann segir að það sé langt í frá auðvelt að nýta alla þá þekkingu í praksis. En samkvæmt mælingum sem gerðar voru árið 2016 með aðstoð ráðunauta frá Tine komust menn að því að orkumagnið í gróffóðrinu sem hann uppskar + kjarnfóðrið að frádreginni orkunni sem hann framleiddi í mjólkinni sýndi að búið hans var með mjög góða orkunýtingu fóðurs og að orkunýtingin lág nánast á pari við fyrirfram sett markmið hans.
Góður árangur í gróffóðurframleiðslu hefur þýtt að hann kaupir í dag inn sama magn af kjarnfóðri og hann gerði árið 2010 þrátt fyrir að framleiðslan hafi aukist úr 210.000l í 250.000lítra á sama tímabili.Jóhannes segir að síðustu 2 ár hafi verið erfið með tilliti til að lækka kjarnfóðurhlutfallið frekar vegna mikilla þurrka árið 2018 og eftirkasta þess árið 2019.
Til að hámarka gæði gróffóðursins síns þá leitast Jóhannes eftir því að slá snemma og segir að í sjálfu sér sé einfalt að sleppa þörfinni fyrir soja (prótein) í kjarnfóðrinum með því að slá snemma en Jóhannes leitast við að slá fyrsta slátt í kringum viku fyrir skrið og telur það um 60% af gróffóðurmagninu. Seinni sláttur er aftur á móti tekin um skrið til að fá meiri struktur (tréni) í fóðrið.Meðaluppskerna hjá Jóhannesi í túnræktinni liggur um 7500 fóðureiningar/ha.