Hér er mjög áhugaverð grein úr Landbrugsavisen Kvæg um hversu góður vorsáður Rúgur er til beitar. Lífrænir bændur í Danmörku hafa notað Rúginn með góðum árangri í fjölda ára sem beitarplöntu – oft í sáðskiptum þegar komin hefur verið ræktunarþreyta í tún með Rígresi og Rauðsmára.
Meltanleiki Rúgsins er yfir 90% FEm svipað og í toppgrasi en sætleiki meiri (sykur um 17%) og prótein í kringum 30% allt gildi sem eru jöfn og/eða hærri en þau geta best orðið í bestu túnum með Rýgresi og Rauðsmára.
Ég hef heyrt af nokkrum bændum sem notuðu vetrarrúg sem vorbeit en það væri gaman að heyra hversu margir stundi slíkt enn. Eins væri gaman að heyra ef menn muna eftir einhverjum nýlegum tilraunum með sáningu Vorrúgs til beitar.
Eitt af því sem við þurfum að horfa meira til, ef við viljum í alvöru auka innlenda fóðurframleiðslu, er að finna leiðir til að nýta beitina mun betur og draga um leið verulega úr kaupum á aðkeyptu kjarnfóðri og próteini yfir beitartímann. Kannski getur Rúgurinn hjálpað til við það en þangað til það skýrist þá getum við allavega gert mun betur í ræktun Rauðsmára í túnum.